Skip to main content

Jarðhiti í grennd við Hala

Borarar012Jarðhitaleit hefur staðið yfir á Hala í Suðursveit undanfarnar vikur. Vitað var um heitt vatn í nágrenni við Helghól, sem er strýtulaga hóll í norðvestur frá Hala. Þar er nú tekið 17 gráðu heitt vatn til nota í fiskeldi af um 20 til 30 m dýpi og víða á svæðinu kringum Helghól hefur fundist allt að 24 gráðu heitt vatn á litlu dýpi.

Ákveðið var að dýpka álitlega holu sem upphaflega hafði verið boruð 21. mars 2002 og freista þess að finna heitara vatn sem nýttist í heita potta og til upphitunar. Skemmst er frá því að segja að á 197 metra dýpi komu um 2 sekúndulítrar af ca 40 gráðu heitu vatni og var þá ákveðið að steypa í þá rás og freista þess að ná heitara vatni á meira dýpi. Lítið sem ekkert vatn kom síðan fyrr en komið var á 449 metra dýpi en þar var önnur vatnsæð með um 2 sekúndulítra af nýtanlegu vatni og nægir það vatnsmagn til upphitunar fyrir bæina á Breiðabólsstaðartorfunni. Haldið var áfram að bora niður á 480 metra en því miður hefur ekki tekist að mæla holuna þannig að vitað sé hver botnhitinn er. Á 345 metra dýpi mældist vatnshitinn 71,4 gráður, er það heitara en reiknað var með og ljóst að þarna er verulegur hiti í jörðu. Það verður því hægt að hita Þórbergssetur upp með heitu vatni eins og áformað var.

Helgh030Gaman er að geta þess að kenningar eru uppi um að Helghóll hafi myndast á ísöld, jökullinn hafi bráðnað vegna jarðhitans, möl og grjót safnast fyrir og myndað þennan strýtulaga hól ofan í jökulhvelfingunni.

Nafnið Helghóll er líka forvitnilegt með tilliti til heita vatnsins og má leiða hugann að því að þarna hafi verið helgur staður, ef að volgt vatn hefur fundist á yfirborði áður fyrr. Í kaþólskum sið var mikil helgi yfir heitum laugum og fólk baðaði sig í þeim sér til heilsubótar. Reyndar segir þjóðsagan að Helghóll heiti í höfuðið á Helga smala frá Reynivöllum sem hafi beitt búfénaði sínum á land Breiðabólsstaðar og bændur þar drepið hann vegna þessa ágangs. Helgaleiði er skipslaga þúst skammt frá Helghól og þar segir sagan að Helgi hafi verið heygður.


Rofalækurinn, sem á upptök sín á þessu svæði er 10 gráðu heitur og ekki var hægt að vatna búfénaði í honum, sennilega verið brennisteinsbragð af vatninu.  Í bókinni, Í Suðursveit, segir Þórbergur að Rofalækurinn sé volgur og börnunum hafi verið bannað að drekka úr honum af því að í honum væru svartir ormar.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 277
Gestir þennan mánuð: ... 8814
Gestir á þessu ári: ... 16854