Skip to main content

Fréttapistill í byrjun ársins 2006

Nýtt ár er gengið í garð og árið 2005 liðið í aldanna skaut. Annir og síðan bilanir í tölvukerfi vefsíðunnar hafa gert það að verkum að skrif hafa legið niðri um tíma. Desembermánuður var hlýr en dimmur, oft þoka og rigning og glöddust allir mjög á gamlársdag þegar birti verulega til, ,,heiddi til" sögðu þeir gömlu mennirnir og um miðnætti var stjörnubjartur himinn. Skemmti fjöldi fólks á Halabæjunum sér við að skjóta eldglæringum upp í himinhvolfið um miðnætti til að heilsa nýju ári. Gestkvæmt var á Hala um jólin, ættingjar og vinir komu og dvöldu yfir hátíðirnar. Margt hefur þó breyst, lítið er nú spilað en meira um ferðalög milli sveita til að sækja skemmtanir Jólaboð var á jóladag hjá Þórgunni Halakonu sem nú býr á Höfn, þar mættu um 30 manns og reyndar spilað bridge á tveimur borðum, jólamessa var á annan í jólum á Kálfafellsstað og jólaball kvenfélagsins Óskar var á þriðja í jólum.

Ýmislegt hefur gerst í Þórbergssetri að undanförnu. Heitt vatn var tengt í gólfin og þar með er Þórbergssetur fyrsta húsið í Austur- Skaftafellssýslu sem hitað er upp með jarðvarma. Einnig er búið að leggja rafmagnstaug að húsinu. Vonandi verður hægt að halda áfram af fullum krafti er líða fer á þennan mánuð.

Veðurfar hefur verið með eindæmum gott á þessum vetri og víða slær fyrir grænum lit í túnum. Vonandi verður þessi vetur mildur áfram og allir á Hala líta nú með bjartsýni fram á veginn og lifa enn í voninni um að takist að opna Þórbergssetur með pompi og pragt á því herrans ári 2006, eins og áformað var í upphafi.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 208
Gestir þennan mánuð: ... 9080
Gestir á þessu ári: ... 17120