Skip to main content

Dvöl á Hala í Suðursveit

gisting myndir1Á Hala í Suðusveit er stórt einbýlishús sem fyrirhugað er að leigja í haust og vetur til hópa, fjölskyldna eða einstaklinga sem vilja koma í heimsókn í Suðursveit og kynnast umhverfi, náttúru og sögu Suðursveitar.
Það eru hjónin Þorbjörg Arnórsdóttir og Fjölnir Torfason á Hala sem hafa staðið fyrir stofnun Þórbergsseturs og uppbyggingu þess, sem bjóða nú einnig fólki til lengri eða skemmri dvalar á Hala á haustin og veturna og ætla að leigja húsið út á vægu verði. Þórbergssetur er í byggingu, verkefnið í miðjum klíðum, en í vetur verður vonandi hægt að halda áfram uppbyggingu og hugmyndavinnu varðandi sýningu sem á að tengjast Þórbergi, og hans kæru sveit, Suðursveit.

Í umhverfi Hala er margt forvitnilegt, og nú fram eftir hausti er boðið upp á gæsaveiði á kornökrum í nágrenninu, en einnig að renna fyrir silung í litlum veiðitjörnum sem eru í hlaðvarpanum. Merktar gönguleiðir eru  meðfram fjallshlíðinni og margt að sjá enda varða sögur og tilvitnanir úr bókum Þórbergs Þórðarsonar leiðirnar. Stutt er að skjótast í fjallgöngu og skemmtileg gönguleið er merkt að Klukkugili í Staðarfjalli. Hægt er að panta gönguferðir með leiðsögn ef fólk vill. Jökulsárlón er í aðeins 13 km fjarlægð og dagsferð í Skaftafell eða á Höfn er kjörin afþreying og svo má lengi telja.
 
Það er ekki síður gaman að dvelja í sveit, ferðast um og njóta útiveru þó komið sé haust eða vetur. Kyrrðin í sveitinni er meiri á þeim árstíma en á sumrin þegar allt er á fleygiferð, myrkrið er svartara og tunglsljósið og norðurljósin ,,bjartari" en í þéttbýli.

Á gistiheimilinu á Hala er góð aðstaða til að dvelja út af fyrir sig, fyrirtaks eldunaraðstaða og setustofa, vinnuaðstaða fyrir fræðimenn og gott rými. Í sveitinni er starfandi lítill sveitaskóli þar sem fram fer einstaklingsmiðað nám og fleiri nemendur komast þar að, ef með þarf.
Það er því ekkert til fyrirstöðu að brjóta blað og skella sér í gott haust- eða vetrarfrí í Suðursveit, aðeins er um 5 tíma akstur frá höfuðborgarsvæðinu að Hala, og vegir oftast vel færir.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 4648
Gestir á þessu ári: ... 22672