Skip to main content

Bréf til Þórbergs

bref 2Hér ber að líta á bréf til Þórbergs frá móður hans, Önnu Benediktsdóttur, en það er eitt af fjölmörgum gögnum og heimildum sem varða skáldið, sem er að finna í Þjóðarbókhlöðunni. Á bréfinu er ekki dagsetning né ártal og því ekki hægt að segja með vissu hvenær það er ritað en sennilega eigi síðar en 1917. Þar kemur fram að Þórbergur er í námi en hann hóf nám í Kennaraskólanum árið 1909.
Í bréfinu kemur fram hvatning móður til sonar að láta ekki hugfallast þótt hann þurfi stöðugt að kljást við fátæktina heldur horfa á það frekar sér til tekna, því þannig öðlist hann ráðdeild og læri að fara með peninga.. Þetta er eitt af örfáum bréfum sem til eru frá móður Þórbergs til sonar síns og verður það birt hér í heild sinni. Meðfylgjandi mynd er sýnishorn af því þar sem m.a. er hægt að sjá rithönd Önnu.


[Ekki sést dagsetning né ártal á þessu ljósriti. Stafsetningu hefur verið breytt til nútímahorfs.]

Ástkæri sonur,

Guð gefi þér allar stundir góðar og gleðilegar.
Hjartanlega þakka ég þér fyrir þitt góða bréf er ég meðtók í gærkveldi. Það er hart að vera fátækur og verða að neita sér um allt en það eru líka margir unglingar sem hafa nóg efni og þurfa ekki að neita sér um neitt, sem venjast á óhóf og eyðslusemi sem fátæklingurinn klífur furðanlega fyrir ráðdeild og góða útsjón.
Okkur þótti vænt um að heyra að þú gætir temprað við þig reykingarnar en þér hefur alla tíma verið borið það orð að þú værir ráðdeildarmaður. Tóbak og brennivín klæðir hvern þann úr fötum sem neytir þess mikið og best er að bragða það ekki.
Ég sofna ekki svo né vakna að ég hugsi ekki um framtíð þína. Við óskum þess af heilum huga að þér gangi vel að fá lánið, jæja ef ekki tekst betur þá taktu lán upp á sumarkaup þitt en svo koma dagar og svo koma ráð, kannski Guði þóknist að greiða þér veg. Pabbi þinn hefur einlægan vilja að hjálpa þér og hann biður þig umfram allt að halda áfram námi þínu.Máski Björn láni þér síðar, hann segist eiga hálft annað hundrað krónur hjá Jóni Guðmundssyni á Höfn og vonast eftir því í vor en Þórhallur lætur engar ávísanir, svo þetta getur allt lagast með tíma.
Fyrirgefðu mér elsku sonur allt þrugl og óþarfa þvaður, það er ástæðulaust fyrir mig að vera nokkuð hrædda um þig. Ég hlakka til að fá mynd af þér, vertu Guðs vernd á hendur falinn,
svo biður þín móðir, Anna (skrifaðu okkur fljótt).

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 4
Gestir þennan mánuð: ... 5553
Gestir á þessu ári: ... 23577