Skip to main content

Þorrablót í Suðursveit

Krossf018Á Þorrablóti sem haldið var á Hrollaugstöðum í Suðursveit 5. febrúar síðastliðinn var sunginn bragur um krossferðir í Suðursveit, nýjung í ferðaþjónustu á vegum Þórbergsseturs. Tveir fjallgöngumenn leiknir af Gísla Jónssyni á Hnappavöllum og Birni Sigfússyni á Brunnavöllum tóku þátt í göngunni og sýndu mikil tilþrif á meðan Þorbjörg á Hala stjórnaði ferðinni og Fjölnir sagði ýkjusögur og útskýrði það sem fyrir augu bar. Zophonías Torfason spilaði á harmonikku og Kolbrún Þorsteinsdóttir og Arnbjörg Sveinsdóttir sungu með. Torfhildur Hólm Torfadóttir á Gerði orti braginn, en hún er höfuðskáld Suðursveitar um þessar mundir. Torfhildur gaf góðfúslega leyfi til að birta vísurnar á Þórbergsvefnum og vonandi hafa einhverjir ánægju af.


Fleiri ljóð eftir Torfhildi verða birt á vefnum á næstunni.

 

( Lag: Ó hve fögur er æskunnar stund)

Pantið miða í pílagrímsferð
pakkinn allur svo hlægilegt verð.
Pantið miða og póstleggið strax
prísinn sendi þér aftur á fax .
Komið með kaffi og kók,
kleinutítlur og vegasöngbók
Gáið að gleymið ei
góða skapinu heima, ónei

Klifatangi er kjörlendi gott
krossferð þaðan nú höldum á brott.
Mætur bóndi sem gera vill gagn
glaður mætir með traktor og vagn .
Steinasand stímum á
Staðarfjalli við ætlum að ná.
Þetta er fínasta frí
flottir jeppar, sól og safarí.

 - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

( Lag: Kátir voru karlar)

Komdu með í krossferð
klifrum upp á fjöll.
Þar sem áður földu sig
forynjur og tröll
Að hríslunum nú höldum
hittumst allir þar
Flýtum okkur förum nú
með ferðabænirnar

Svei mér þá mig sundlaði
er Súrmatarhnaus leit.
Kolsvartur þar kóklar
krummi í ætisleit
Hérna best í hallanum
hvílumst góða stund
Á mjúkri mosaþembu
má taka hænublund

Brött er þessi brekka
og best að taka mynd.
Andskoti er gott útsýnið
upp á Sauðdalstind
Liðið fer nú að lýjast
lokið brekku er
Kannski kaffitárinu 
í kjaftinn skellum hér

Í Garðhvamminn svo göngum
þar oní græna laut.
Komið sjáið kómentið
krossinn Þórbergsnaut
Þó konungsstólar steypist
stendur krossinn enn.
Í krossferðirnar keifa munu
knáir sómamenn.

Með bljúgum huga best er
að biðjast fyrir hér
En miða beint á Mekku
mestur vandinn er
Krossinn vættan vatni
vígir nú presturinn
og vítt um alla veröldina
víbrar söngurinn

Í Klukkugilið kíkjum
kalla Myrkrin djúp.
Dalsáin þar drynur
dulin leyndarhjúp.
Hvannadalur heillar
horfin þarna er braut.
Þar geymdir voru í gamla daga
griðungar og naut.

Hæ, hó, hæ hó
með nesti og nýja skó
Hæ hó, hæ hó
Við töltum um holt og mó.
Hæ hó, hæ hó
og Þorbjörg hún skellihló
Hæ hó, hæ hó
nú er mér sko um og ó

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - 

( Lag. Ó hve fögur er æskunnar stund)

Punktinn setjum við pílagrímsferð
prúttað getum um þjónustu og verð.
Ferðin reyndist oss þó nokkur þraut
þessi dagur er horfinn á braut
Næsta ár nú á ný
notalegt skulum taka okkur frí
Kæri vin, komdu með
krossinn heilaga getur þú séð.

Torfhildur Hólm Torfadóttir

 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 159
Gestir þennan mánuð: ... 5708
Gestir á þessu ári: ... 23732