Skip to main content

Breiðabólsstaðarlónið

lon011Síðustu daga hefur verið einmuna blíða í Suðursveit, blankalogn, sólskin og hiti um frostmark. Mikill snjór er í fjöllum og snjógráði á láglendi. Breiðabólsstaðarlónið er ísi lagt og þá er alltaf mikið um dýrðir á Breiðabólsstaðarbæjum. Í Rökkuróperu Þórbergs er mikið fjallað um leiki barna og þar á meðal leiki og skautaferðir á Lóninu.

,, Dásamlegast af öllum svellum var svellið á Lóninu. Það lá við að við tryllumst, þegar við horfðum yfir þessa miklu, spegilfögru ísbreiðu fyrst á haustin. Það var fyrir okkar augum eins og stórkostleg ópera í eyrum músikmanna. Þá gleymdum við stundum vitinu og æddum út á það án þess að reyna fyrir okkur.”  (Í Suðursveit bls 328)

Annars staðar segir:

,, Lónið var voldugt og fagurt. Þessi bjarti svellheimur náði alla leið utan frá Breiðamerkursandi austur til Hornafjarðar, upp undir 40 kílómetra. Við fórum í mikla leiki á Lóninu. Þar voru rökkrin djúp og tunglsljósin töfrandi. Þar heyrðust stundum kynlegir brestir og dynkir. Þar sáust menn á ferð, sem engir jarðheimsmenn voru”( Í Suðursveit bls. 331)

lon012

Hasarinn í öllu saman var þó að renna sér á skautum, bruna af eigin krafti frjáls sinna ferða. Þórbergur lýsir því svo: 

,, Ég gerði mig til dæmis framboginn og hljóp hlaupamannslega og skellti stundum hælunum í gríni upp undir rass. Svo hætti ég að hlaupa og lét mig renna á fleygiferð langa rennu, stundum á öðrum fæti og skipti um fót, beygði mig svo allt í einu og horfði í gegnum klofið á mér á fluginu, rétti mig svo upp og rann teinréttur og tígulegur, stundum með krosslagðar hendur, stundum fyrir aftan bak, hallaði mér fallega út í hliðarnar eins og frönsk skonnorta á siglingu, tók snöggar beygjur, hnitaði hringa, snöri mér í kring og gat jafnvel rennt mér afturábak. (Í Suðursveit bls 332 - 333).

lon032Það er gaman að lesa lýsingar Þórbergs á skautaferðunum á Lóninu og hæst ber þar spennusögu af ferðinni til Nevjork sem er í bókinni Í Suðursveit bls 332 – 336.

Það er margt að sjá í Suðursveit á vetrardegi og gaman að njóta útiveru. Þar jafnast fátt á við að fara á skauta á Lónið. Skautaferðirnar hans Þórbergs voru ekki bara spennandi vegna hraðans eða apalátanna, segir hann.

,, Þær voru líka svölun á útþrá og skemmtun af að sjá náttúruna í nýjum og síbreytilegum myndum”,

að sjá landslög breytast, fjallatinda fæðast, skipta um lögun og hverfa, og allt á fleygiferð eins og kvikmyndir nú á tímum.

,,Að fara á skautum var að sjá heiminn alltaf öðruvísi og öðruvísi".

,, Mín ópera á skautaferðum var upphafning til hins yfirnáttúrulega.”

Það er tvímælalaust óvenjuleg og spennandi upplifun að vera á skautum á Breiðabólstaðarlóni á vetrarkveldi  í tunglsljósi og kyrru veðri og eiga þess kost að skynja þá dularveröld rökkurs og skugga sem Þórbergur er að lýsa í bók sinni. Sú rökkurópera er engri lík og verður ekki spiluð annars staðar í veröldinni.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 4
Gestir þennan mánuð: ... 4384
Gestir á þessu ári: ... 22408