Skip to main content

Jólahald á Hringbraut 45

Þorbjörg Arnórsdóttir skrifar:

thorb margrSigurður Þorsteinsson frá Reynivöllum í Suðursveit segir frá jólahaldi hjá Þórbergi og Margréti á Hringbraut 45 í viðtali sem María Gísladóttir tók við hann síðastliðinn vetur. Sigurður segir að þessi aðfangadagskvöld hjá þeim hjónum séu afskaplega skemmtileg og falleg í minningunni. Sigurður segir svo frá.

,, Ég flutti til Reykjavíkur 1964. Síðan gerist það í desember 1965 að ég var á gangi í Þverholtinu á leið til kunningja minna að ég rekst á þau Þórberg og Margréti. Þá voru þau á leið uppí smjörlíki en Ragnar í Smára átti þá hlutdeild í því og gaf þeim smjörlíki fyrir jólin. Þarna bjóða þau mér heim um jólin. Þá upphófst sú hefð

Eftir þetta var mér alltaf boðið til þeirra á aðfangadagskvöld og átti ég að koma klukkan 6 eða hálf 7 einhvern tíma á því tímabili. Þarna var gaman að vera, það voru fleiri karlar, Sigurjón móðurbróðir, hann var boðinn, Gísli Pálsson frá Skálafelli, hann kom alltaf eftir matinn. Það voru fleiri sem komu í þessi jólaboð á aðfangadagskvöld heldur en við frændur en það var löngu áður en ég kom til sögunnar því þeir svona heltust úr lestinni. Sigurbjörn Jónsson frá Smyrlabjörgum var einn þeirra.

Þórbergur passaði vel upp á tímann. Hann fylgdist nákvæmlega með hvenær maður kom og hafði tiltækt hvenær maður hefði komið í fyrra og hvað það hefði munað mörgum mínútum til eða frá. Hann hafði þá skráð í dagbækur sínar nákvæmlega hvenær maður hefði komið. Þórbergur sást aldrei þegar við komum. Það var Margrét sem kom til dyra og bauð okkur inn í betri stofuna, stássstofuna, hin stofan var skrifstofa Þórbergs. Hann kallaði hana umskiptingastofuna. (Umskiptingastofan var upphaflega kölluð þjóðsagnastofan vegna þess að þar las Þórbergur þjóðsögur fyrir Lillu Heggu. Stofan fékk síðan nafnið unnskiptingastofan eftir að Þórbergur las “Átján barna faðir í álfheimum” fyrir hana)

Það var hurð á milli þessara tveggja stofa, vængjahurð með gleri. Margrét bauð inní betri stofuna að fá sér sæti þar og setti fyrir okkur stórt glas alveg barmafullt af drykk sem þau kölluðu Þorláksdropa og þetta drukkum við frændur áður en byrjað var að borða, kannski svona tvo glös. En ég sá það í gegnum glerið á millihurðinni, það voru svona mött gler, að það var ljós inni í umskiptingastofunni. Þar var þá meistari Þórbergur, ég sá skuggann af honum, hann var að ganga um gólf, fram og til baka. Við sátum í góðan hálftíma uppundir klukkutíma, hann lét ekkert á sér kræla, þannig var það alltaf. Svo birtist hann allt í einu þegar honum fannst tími til kominn. Þá var hann búinn að líta í dagbækurnar og það fyrsta sem hann sagði þegar búið að bjóða gleðileg jól var hvenær maður hefði komið í fyrra, hvað klukkan hefði verið, hvað margar mínútur yfir sex og hvað hún hefði verið þegar maður kom núna. Hann vissi nákvæmlega hvenær við komum enda náttúrulega heyrði hann það þó hann kæmi ekki fram fyrr.

Síðan var boðið í jólamatinn, það var dekkað borð í umskiptingastofunni. Þetta voru tvær samliggjandi stofur eins og ég segi, álíka stórar og þar var hann með skrifborðið sitt inni í umskiptingastofunni og bókaskápinn, einn veggurinn var alvegi þakinn í bókum. Þar var búið að dekka borð og oftast var steik, annaðhvort svínakjöt eða lambakjöt. Þórbergur var ekki ánægður með það en lét sig hafa það, hann sagðist helst ekki vilja annað en feitt hangikjöt, það væri sitt uppáhald. Það voru náttúrulega Þorláksdropar með matnum.

Hvernig drykkur voru Þorláksdroparnir?

 Þorláksdroparnir voru heimatilbúnir úr rúsínum, sykri og pressugeri. Fullstaðnir gátu þeir verið helvíti rammir. En hún bragðbætti þá með djús hún Margrét.

Veistu af hverju þeir heita Þorláksdropar?

Það hafði gerst einhvern tíman löngu áður eftir að Margrét var búin að brugga handa Þórbergi að hann bauð nokkrum vinum sínum í þennan drykk á Þorláksmessu, þannig held ég að nafnið sé til komið. Margrét sá um að brugga en hún smakkaði aldrei á þeim eftir að ég kom þarna, ég hugsaði með mér að hún væri búin að fá nóg af þeim. Hún hafi bara verið orðin leið á Þorláksdropum. Hún vildi eitthvað annað frekar enda færði ég þeim alltaf vín í jólagjöf, manni datt ekki í hug að fara að gefa þeim bækur.

En Þórbergur sjálfur, drakk hann Þorláksdropana?

Já, já það var uppáhaldsdrykkurinn hans, og stundum þegar ég kom þangað og inn í umskiptingastofu til hans, Margrét var einhversstaðar, kannski hefur hún lagt sig, eða eitthvað svoleiðis. Þá var það fyrsta sem hann spurði “Ertu nokkuð á þrælahaldaranum núna?” Ef svo var þá varð ekki meir úr neinu en ef ég var ekki á þrælahaldaranum þá fór hann út á altan og kom með fulla Sjéniver flösku af Þorláksdropum sem hann geymdi þar í kælingu og setti glös á borðið og skenkti mér og sér líka. Þá fór hann yfir það hvernig ætti að drekka þá. Maður ætti að setja svona í fullt glas og bara sölsa þessu í sig í einum teig, þetta voru svona eins og vatnsglös já og drekka í einum teyg og ganga svo um gólf, ganga svo um gólf. Og hann hellti í skyndi, snarlega á glösin aftur. Þegar búið væri að ganga svolitla stund um gólf þá ætti maður að drekka úr öðru glasi og þá niður í það hálft, sagði hann. Og ganga um gólf. Og klára það svo. Næst, þá búið var að drekka tvö, átti maður að fá þriðja glasið, það átti að drekka mjög hægt og síðan alls ekki að drekka meira. Þá væri maður farin að finna hreyfingu sagði hann. Það ætti ekki að vera meira.

Þetta hefur þá ekki verið neitt mjög sterkur drykkur?

Nei, nei en nóg til þess, svona eins og bjór líklega Þegar búið var að borða fóru allir í betri stofuna ,þar var setið og talað saman, það voru aðallega skemmtisögur sem að þau höfðu þá að segja. En það fór venjulega þannig að Margrét vildi hafa orðið og bar Þórberg ofurliði, þá sagði hann bara “jæja Margrét þú kannt betur að segja frá þessu”. Það voru ýmsar háðsögur um hitt og þetta.

Var Margrét skemmtileg?

Já hún gat verið asskoti skemmtileg og hún hafði góðan húmor , hún var yfirleitt alltaf mjög skemmtileg á aðfangadagskvöld en hún hætti að veita Þorláksdropa þegar það var komið í betri stofuna þá voru þeir ekki nógu góður drykkur lengur. Þá bauð hún uppá Vodka og eitthvert bland með og þar var setið og drukkið og skemmt sér fram eftir kvöldi, síðan var kaffi ja ætli ekki klukkan svona 10 til 11 og þegar það var búið þá vildu menn nú fara að fara en það vildu þau ómögulega og venjulega stóð þetta svona alveg fram á miðnætti og þeim fannst það heldur stuttur tími. Þetta voru skemmtileg jólakvöld, í minningunni, mjög skemmtileg, Þau voru alveg óþvinguð og engar seremóníur, bara þau tvö og svo við þessir karlar. Þau gáfu alltaf bækur í jólagjafir. Ég fékk alltaf bók en það voru ekki endilega bækur eftir Þórberg. Margrét gat verið rausnarleg þegar hún tók það í sig. Hún vildi endilega fá að þvo af mér þvott á tímabili og ég þáði það um tíma, ekki reglulega, hún vildi gera þetta til þess að ég gæti sparað meira af peningum því hún tók ekkert fyrir það. En þegar ég fór að sækja þvottinn þá færði ég henni alltaf eitthvað í staðinn, stundum viskípela og það kom fallegt bros á Margéti þegar hún tók við viskípelanum. Þórbergur drakk helst ekkert nema Þorláksdropa og hafði þetta eins og ég var búin að segja með fyrirkomulagið.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 6
Gestir þennan mánuð: ... 22
Gestir á þessu ári: ... 104544