Skip to main content
  • Þórbergssetur

  • Steinninn í hlaðinu

  • Andlit skáldsins

  • Sólsetur

  • Jökulsárlón

  • Bókaveggurinn

  • Norðurljós yfir Hala

  • Demantsströnd

  • Textar á sýningu

  • Á flugi yfir jökulsporðinum

LATRADU

ESPERANTO VEFUR


Tripadvisor


Facebook

Menningarsetur reist til minningar um Þórberg Þórðarson rithöfund.

Um safnið

Þórbergssetur  er opið alla daga frá 1. febrúar 2024 kl 9 - 21 

Verð á sýningar er krónur 1500, en 1200 fyrir hópa sem eru 10 manns og fleiri

Sýningar

Í Þórbergssetri eru sýningar helgaðar sögu Suðursveitar og lífi og verkum Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar.

Allir velkomnir í Þórbergssetur.

Veitingar

Veitingahús og safn er opið til loka nóvember 2023 
Sérstök dagskrá fyrir hópa ef óskað er.

Vinsamlega pantið í síma 478 1078/ 867 2900 eða á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Bókakynning og ljóðalestur í Þórbergssetri á Hala

6.8cm Söngvar norðursinsBókaútgáfa Félags ljóðaunnenda á Austurlandi og önnur starfsemi félagsins verður kynnt í Þórbergssetri á Hala sunnudaginn 30. apríl 2023. Dagskráin hefst klukkan 13:30 og lýkur klukkan 15:30. Stjórn félagsins stendur að kynningunni í samstarfi við Þorbjörgu Arnórsdóttur, forstöðumann Þórbergsseturs.                     
Eftirtalið stjórnarfólk kemur fram á samkomunni og segir frá bókum félagsins og flytur ljóð úr þeim: Arnar Sigbjörnsson úr Fellabæ, nú búsettur í Kópavogi, Magnús Stefánsson Fáskrúðsfirði og Sólveig Björnsdóttir Laufási í Hjaltastaðaþinghá. Síðast en ekki síst kemur fram skáldkonan Kristín Laufey Jónsdóttir, Hlíð í Lóni og flytur eigin ljóð og annarra. Félag ljóðaunnenda á Austurlandi var stofnað árið 1996 og fljótlega urðu félagarnir yfir eitt hundrað að tölu. Hefur sá fjöldi félagsmanna haldist að mestu óbreyttur öll þessi ár. Félagið hefur verið hugsað sem sameiginlegur vettvangur höfunda og annarra ljóðaunnenda og það hefur staðið fyrir fjölmörgum samkomum víða um fjórðunginn þar sem ljóð hafa verið lesin og sungin. Þá hefur félaginu verið ætlað að örva og styðja félagsmenn til útgáfu eigin ljóða. Strax við stofnun félagsins komu fram hugmyndir um útgáfu ljóðasafns eftir austfirska höfunda, slíkt safn hafði komið út árið 1949, bókin Aldrei gleymist Austurland. Fyrsta bók hins nýja ljóðafélags kom svo út árið 1999 og hlaut heitið Raddir að austan – Ljóð Austfirðinga. Bókin hefur að geyma ljóð og lausavísur eftir 122 austfirska höfunda sem allir voru á lifi við útkomu bókarinnar.                 
Ekki stóð til í upphafi að félagið legði fyrir sig frekari bókaútgáfu en árið 2001 hóf það útgáfu á flokk ljóðabóka undir heitinu: Austfirsk ljóðskáld. Fyrsta bókin hlaut heitið Austan um land, höfundur hennar er Sigurður Óskar Pálsson frá Borgarfirði eystra. Svo hefur þetta æxlast þannig að síðan hefur ein bók komið út í flokknum á hverju ári. Þær eru því orðnar 22 að tölu. Sú nýjasta er úrval úr ljóðum fjögurra systkina frá Heiðarseli í Jökuldalsheiði, hún kom út á síðasta hausti. Bók númer 23 er í undirbúningi, ljóð Iðunnar Steinsdóttur frá Seyðisfirði.  Fljótlega kom að því að framboð varð á fleiri ljóðahandritum en komust að í flokknum og félagið fór að gefa út það sem við nefnum „aukabækur“. Svo skemmtilega vill til að þær eru líka orðnar 22 talsins svo að félagið hefur gefið út 44 bækur.                                                                                                          
Erfitt er að láta sölu ljóðabóka standa undir kostnaði við útgáfu þeirra og félagið hefði ekki gefið út allar þessar bækur án þeirra styrkja sem það hefur notið. Uppbyggingarsjóður Austurlands hefur styrkt útgáfuna mörg síðustu ár og einnig sveitarfélög á Austurlandi. Félagar greiða ekki eiginlegt félagsgjald en kaupa eitt eintak af bókum í flokknum Austfirsk ljóðskáld. Með þessu móti er félaginu kleift að halda bókaútgáfunni áfram. Magnús Stefánsson.

 

Hrossakjötshelgin á Hala

Langfjölmennasta hrossakjötsmótið á Hala var haldið í Þórbergssetri helgina 14 - 16 apríl. Alls spiluðu 88 bridgespilar alls staðar af á landinu. Segja má að spilað hafi verið linnulaust frá föstudagskvöldi til klukkan 2 á sunnudegi. Þess á milli voru teknar góðar matarpásur. Á hverju ári bragðast hrossakjötið alltaf best og bleikjuhlaðborðið í sunnudagshádegi vekur líka mikla ánægju. Segja má að mótið sé mjög að hætti Suðursveitunga frá þeim tíma er Torfi Steinþórsson á Hala hélt uppi spilamennsku og hrossakjötsáti í Suðursveit enda haldið til minningar um hann . Í hópnum eru nokkrir spilarar sem komið hafa nánast á hverju ári síðan 2007 en þá var fyrsta mótið og mættu þá 32 spilarar. Fjölmargir Skaftfellingar  voru fyrstu árin en fækkað hefur mjög í þeim hópi heimamanna sem sækja spilamennskuna. Mótið er á skrá hjá Bridgesambandi Íslands og gefin eru  silfurstig fyrir þátttöku á mótinu. Sigurvegarar árið 2023 voru Hermann Friðriksson og Stefán Jónsson með 60% skor. Í öðru sæti voru Vigfús Pálsson og Guðmundur Skúlason og í þriðja sæti Halldór Þorvaldsson og Magnús Sverrisson. Konum hefur fjölgað mjög í hópi spilara og var Ingibjörg Guðmundsdóttir með bestan árangurinn í 10. sæti ásamt makker sínum Guðmundi Birki Þorkelssyni. Mótsstjóri var Þórður Ingólfsson og stjórnaði mótinu nú sem fyrr af röggsemi. Nýjasta tölvutækni er notuð og birtast úrslit úr hverju spili jafnóðum á veraldarvefnum

Öll úrslit á mótinu má sjá á eftirfarandi tengli  https://urslit.bridge.is/.../f1e483df-1483-4a86-82d9..

 

Bridgemót

 

Minningarorð um Ingibjörgu Zophoníasardóttur húsfreyju og bónda á Hala í Suðursveit

 Ingibjörg amma fallegustIngibjörg Zophoníasardóttir á Hala í Suðursveit er látin á hundraðasta æviári. Langri lífsgöngu er lokið, æviskeið sem spannar heila öld. Það er líkast kraftaverki líf þeirra kvenna er lifðu við stórfelldar umbreytingar 20. aldarinnar og þurftu að takast á við lífsbaráttuna með trú á eigin getu framar öllu öðru.
Ingibjörg á Hala var ein slík kraftaverkakona sem af einstökum dugnaði, áræðni, útsjónarsemi og ósérhlífni tókst á við hvern dag af æðruleysi, - eiginleikar sem fylgdu henni allt fram í andlátið þrátt fyrir þverrandi krafta.
Ingibjörg á Hala var fædd á Hóli í Svarfaðardal 22. ágúst 1923 og ólst þar upp með foreldrum sínum. Hún var yngsta blómabarnið, falleg broshýr ung stúlka, stundaði sjálfsþurftarbúskapinn með foreldrum sínum og stundaði nám í Kvennaskólanum á Blöndósi. Þá var það sem nýútskrifaður kennari úr Suðursveit Torfi Steinþórsson mætti í Svarfaðardalinn til kennslustarfa, og var m.a. til heimilis á Hóli. Teningnum var kastað, hann hreif með sér ungu stúlkuna suður yfir heiðar og jökla og hún mætti sem ung húsmóðir á Hala með þriggja mánaða dóttur þeirra. árið 1945. Þar bjuggu þau alla tíð síðan. Torfi tók við skólastjórastöðu í Hrollaugsstöðum, síðar höfðu þau þar vetrardvöl en studdu við búskapinn á Hala að sumrinu. Börnin fæddust hvert af öðru og á tuttugu árum voru þau orðin tíu talsins. Einn dreng misstu þau árið 1950. Það voru þung örlög margra ungra mæðra á þeim árum í afskekktum sveitum. Ég fann alltaf fyrir sárum harmi hjá tengdamóður minni, en man að hún sagði eitt sinn. ,, ‘Eg fékk bara tvö börn í staðinn ” en tveimur árum síðar eignuðust þau hjónin tvíbura. Börnin fæddust upp á lofti á Hala, ljósmóðurin var sótt ,,upp yfir sand” og enga konu heyrði ég tengdamóður mina dýrka eins og Helgu ljósmóður á Brunnavöllum. Á hana lagði hún allt sitt traust, þar var hjálpin.
Allt til ársins 1964 voru Steinavötnin óbrúuð og að haustinu var heyvagninn settur fyrir dráttavélina, Torfi og Ingibjörg, búslóðin og börnin fluttu sig um set í Hrollaugsstaði og heim að Hala aftur að vori til ársins 1966. Þá tók Ingibjörg við búi á Hala með tengdaföður sínum Steinþóri Þórðarsyni á Hala og stundaði það af miklum dugnaði þangað til tveir synir hennar tóku við árið 1972.
Það var sama hvar Ingibjörg kom að. Alls staðar var sami dugnaðurinn, metnaðurinn og óbilandi kjarkur sem dreif hana áfram. Hún saumaði allan fatnað og fyrir jólin hvein í saumavélinni fram eftir nóttu, og prjónavélin var óspart notuð til að prjóna nærföt og peysur. Bökunarilmur var í eldhúsinu alla daga, heimilisverkin skipulögð eftir dögum . Rafmagn kom árið1971 og þá fyrst mættu nútímaþægindi í eldhúsið á Hala. Ég man vel þá stund þegar þvottavélin og frystikistan komu á Hala. Þá hættu lifrarskammtarnir og sviðin að koma úr frystihólfinu á Höfn í stórum strigapokum, og ekki þurfti að hafa það sama í matinn alla daga vikunnar þar á eftir. Uppþvottavélin var mikið þarfaþing því það voru 12 – 16 manns í heimilinu á Hala yfir sumartímann og máltíðir og kaffitímar reglulega yfir daginn, borðsett var bæði í eldhúsinu og eystri stofunni fyrsta sumarið mitt á Hala. Torfi veiddi silung í Lóninu, og Ingibjörg átti það gjarnan til að sækjast eftir nýjungum í eldamennsku. Hún tók m.a. upp á því að flaka silunginn og steikja í rúgmjöli og smjöri á pönnu. Gestagangur var mikill og allur viðurgjörningur var slíkur að eftir var munað. Það jafnaðist ekkert á við silunginn hennar Ingibjargar á Hala. Sveitungi hennar og mikil vinkona okkar á Hala sagði einu sinni. ,,Það var bara eins og ekkert væri ómögulegt í lífinu hennar Ingibjargar”. Hún lagði sig fram um að finna lausnir og una við það sem til staðar var hverju sinni með bjartsýni og opnum huga.
Ingibjörg og Torfi voru glaðlynd og félagslynd, Ingibjörg var í forsvari fyrir kvenfélagið í Suðursveit í 25 ár og Ungmennafélagið Vísir naut krafta þeirra hjóna lengst af. Eftir þeim var tekið á dansleikjum hvað þau dönsuðu listilega ræla og valsa og þau voru alla tíð forsvarsmenn eða virkir þátttakendur í félagslífi sveitarinnar. Alltaf var tími til glaðra stunda með gestum og gangandi jafnt við eldhúsborðið á Hala sem á samkomum sveitarinnar.
Ingibjörg var opin fyrir allri framþróun og studdi af ráðum og dáð uppbyggingu Þórbergsseturs. Hún stóð fyrir gerð minnisvarðans á Hala og er frumkvöðull að skógrækt í hlíðunum ofan við Halabæinn.
Ég þakka Ingibjörgu tengdamóður minni samfylgdina með fjölskyldu okkar á Hala í 50 ár. Ljúfar minningar um Ingibjörgu ömmu og Torfa afa birtast við hvert fótspor á Hala. Það var mjög í anda þessarar kraftaverkakonu að lifa í nær hundrað ár, fara í gönguferðir allt fram á síðustu mánuðina og munda heklunálina fram á síðasta dag, - þó að hún væri nánast alblind. Síðasta heimsóknin til hennar er eftirminnileg, hún spurði almennra frétta af ættingjunum og maður fann að hún var sátt og glöð eftir langa ævi og var tilbúin að hafa vistaskipti yfir í æðri veröld
Blessuð sé minning Ingibjargar á Hala 

 

Kveðja til Þórbergsseturs og þó sérstaklega til aðstandenda setursins á Hala.

 

skjal 2 copy

Eftirfarandi bréf barst inn á bókmenntahátíð Þórbergsseturs  frá Þresti Óskarssyni safnafræðingi ásamt skemmtilegu handskrifuðu handriti sem ber heitið Spakmæli Sigurðar Jónassonar

Þegar eitt af áhugamálunum eru gamlar bækur og gamalt íslenskt prent þá hittir maður gjarnan einhverja sem hafa svipuð áhugamál eða standa frammi fyrir þeirri kvöð að þurfa að losa sig við blöð og bækur sem síður eru söluvara í seinni tíð. Fyrir nokkrum árum hitti ég gamlan prentara á höfuðborgarsvæðinu sem hefur lagt sig eftir prentverki frá síðustu öld og ýmiskonar sérprentunum eins og tölusettar bækur, áritaðar, prentaðar í takmörkuðu upplagi, á annan pappír með fábrugðinni titilsíðu og svo framvegis. Hjá honum sá ég t.d. þrjár útgáfur af Skaftfellskum þjóðsögum skráðum eftir Guðmundi Jónssyni Hoffell og þá erum við ekki að tala um nýjustu endurprentunina.
Nýlega þegar ég var í heimsókn hjá þessum vini mínum dróg hann upp arkir þær sem hér verða afhentar Þórbergssetri til eignar. Um er að ræða Spakmæli Sigurðar Jónassonar, alls 13 spakmæli handskrifuð af Þórbergi á örk. Sagðist eigandinn vilja koma þeim í mínar hendur og ég réði svo hvað um þetta yrði. Ég spurði hann um sögu handritsins sem hann sagðist þekkja en þvertók fyrir að fylgdi því, þar sem hann vildi ekki koma fram undir nafni en staðfesti að hann hafði fengið það gefið hjá öðrum enn eldri prentara sem þekkti Þórberg persónulega á fyrri hluta síðustu aldar. Hann taldi að Þórbergur hafi nýtt sér þessi spakmæli eða getið þeirra í einhverri af ritum sínum en það hefur ekki verið sannreynt. Ég tel að þessu sé hvergi betur fyrirkomið en á setri Þórbergs á æskuslóðum hans heima á Hala í Suðursveit.

 

Til hamingju með bókmenntahátíðina 2023.     
Kópavogi 1. apríl 2023 
Þröstur Óskarsson

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 75
Gestir þennan mánuð: ... 5497
Gestir á þessu ári: ... 13537