Skip to main content

Um áramót

Steinninn á hlaðinuStarfsárið 2021 var viðburðarríkt í Þórbergssetri þó að opnunartími væri styttri yfir árið eða aðeins sjö mánuðir vegna Covid heimsfaraldurs. Í sumar var fjölmenni í Þórbergssetri flesta daga og oft glatt á hjalla. Í stað hefðbundinna viðburða utan ferðamannatímanns var unnið að ýmsum verkefnum sem tengdust skráningu menningarminja. M.a. styrkti Þórbergssetur fræðastörf og söfnun merkra heimilda um sögu héraðsins og tók þátt í samstarfsverkefni um skráningu fornra rústa í Sveitarfélaginu Hornafirði með Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Unnið er að endurnýjun Þórbergsvefsins og safnað inn á hann nýju efni, en einnig var sett í loftið ný vefsíða www. busetuminjar.is. Ósk okkar er að á komandi ári losnum við undan erfiðum aðstæðum sem fylgt hafa heimsfaraldri og hægt verði að taka upp þráðinn á ný hvað varðar ýmsa menningarviðburði og hefðbundna starfsemi.
En ,,steinarnir tala" enn í Suðursveit, og haldið verður áfram veginn.  Þórbergssetur óskar því gestum og velunnurum sínum gleðilegs nýárs og farsældar á komandi ári. Við sendum kærar þakkir fyrir allar heimsóknirnar á árinu sem er að líða, þær veglegu gjafir sem borist hafa og þann góða hug sem þeim fylgir. Von okkar stendur til þess að með vorinu megi vænta ,,betri tíðar með blóm í haga" og lífið muni brátt færast í eðlilegt horf um víða veröld. Gleðilegt nýár.

Myndspjöld um eyðibýli í Suðursveit

sýning_1.jpgÞann 29. júlí síðastliðinn var sett upp myndasýning um eyðibýli í Suðursveit í Þórbergssetri. Sýningin er afrakstur samvinnuverkefnis Þórbergsseturs og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar um skráningu og rannsóknir á eyðibýlum og fornum mannvistarleifum.og var flutt frá Menningarmiðstöð Hornafjarðar þar sem hún hafði verið uppi síðan í júni 2021.  Ummerki um horfna byggð frá liðnum öldum má víða greina í landslagi og eru þar ýmsar tegundir jarðlægra minja svo sem tóftir bæjarhúsa sem eru vitnisburður um búsetu og mannlíf frá liðnum öldum. Hönnuður sýningarinnar er Tim Junge grafískur hönnuður og Sigríður Guðný Björgvinsdóttir yfirmaður rannsóknarsviðs Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar sá um kort og textagerð. Einnig hefur verið opnuð vefsíða www.busetuminjar.is þar sem frekari fróðleik má finna um verkefnið. Fyrirhugað er að fara um allt sveitarfélagið Hornafjörð og mæla upp og skrá þær minjar sem finnast á yfirborði, en einnig að leita sögunnar sem fylgir hverjum stað eins og kostur er.  Einnig hefur verið opnum síðan fornar tóftir og búsetuminjar á feisbókinni til að vekja áhuga fólks á að tilkynna og birta myndir af minjum sem það þekkir til. Ljóst er að framundan er margra ára vinna við verkefnið en þegar er lokið að mestu að skrá og mæla upp minjar í Suðursveit og vesturhluta Mýra. Ætla má að í sveitarfélaginu sé amk 100 þekkt eyðibýli og svo merki um mannvist  sem sýnir forna búskaparhætti, garðar og hleðslur, fjárborgir og sauðahús, réttir og naust svo eitthvað sé nefnt. Sjá nánar www.busetuminjar.is og Facbook síðu verkefnisins.

 

Gjafir og góður hugur

teppið_hennar_Margrétar.jpgÞað hefur verið líflegt í Þórbergssetri í sumar, fjöldi fólks þegið veitingar og heimsótt safnið. Gjafir hafa verið að berast á síðustu árum sem nú prýða sýninguna og aðstandendur Þórbergsseturs þakka þann hlýja hug sem þeim gjöfum fylgir. Þórbergssetur er því lifandi safn byggt utan um andlegan arf og minjar, en um leið birtist þar veröld horfins tíma þar sem hægt er að rekja sig eftir sögu íslensku þjóðarinnar í gegnum æviskeið Þórbergs Þórðarsonar og konu hans Margrétar Jónsdóttur. Margrét var mikil hannyrðakona og fyrir nokkru barst að gjöf veggteppi sem Margrét saumaði, mikið listaverk sem nú hefur verið sett upp á auða vegginn í þjóðsögustofunni. Gefendur veggteppisins eru hjónin Petrína Ásgeirsdóttir frænka Margrétar og maður hennar Pétur Jóhannesson. 

Margrét Jónsdóttir var mikill listunnandi, fagurkeri og listakona og er teppið fína sannarlega gott vitni um þá hæfileika hennar en er  um leið sýnishorn af handverki kvenna frá þessum tíma. Margrét safnaði líka málverkum eftir fræga íslenska listmálara og áttu þau hjón fallegt safn málverka sem þau gáfu síðan Listasafni alþýðu. 

Fleiri munir hafa verið að berast sem gjafir síðustu tvö árin. Þar á meðal er  ljósakrónan úr stofu þeirra hjóna sem Herdís Petrína Pálsdóttir gaf, kínverskir listmunir og margt fleira. Gestir Þórbergsseturs geta líka sest núna við háborð í ,,plusseraða" stóla þegar þeir snæða og er þá boðið að setjast við borðstofuborð þeirra hjóna  sem gefið var af  Jóni Hjartarsyni leikara og Ragnheiði Tryggvadóttur frá Rithöfundasambandi Íslands. 

Allar þessar gjafir sem nú eru komnar heim á Hala fá á sinn hátt ævarandi líf og merkingu á þeim stað sem Þórbergi var kærastur og gera sýninguna fjölbreyttari og svipmeiri með hverju árinu. Fyrir það eru aðstandendur Þórbergssetur afar þakklátir og finna nú enn betur hvaða skyldur Þórbergssetur ber til framtíðar um varðveislu og framsetningu muna á sýningunni.Hraðar þjóðfélagsbreytingar kalla á að við gleymum ekki upprunanum heldur lítum til fortíðar og gerum minningar liðins tíma sýnilegar næstu kynslóðum.

Fornar rústir og búsetuminjar í Suðursveit

sýning 3Þann 18. júní síðastliðin var opnuð sýning í Menningarmiðstöð Hornafjarðar í tengslum við samvinnuverkefni Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og Þórbergsseturs um skráningu eyðibýla og menningarminja í landslagi. Unnið hefur verið að verkefninu í rúmt ár og sama dag var opnuð vefsíðan www.busetuminjar.is þar sem eru þegar komnar inn upplýsingar um 15 eyðibýli í Suðursveit. Segja má að verkefnið sé á byrjunarreit og fyrirhugað er að setja meira efni inn á vefinn á næstu mánuðum.  Vonandi verður verkefnið hvatnig til annarra að kynna sér betur sögu fyrri kynslóða og flytja þekkingu á milli kynslóða með tækni nútímans. Þannig getum við ef til vill treyst vitund okkar sem þjóðar á tímum hraðra þjóðfélagsbreytinga og heiðrað þær kynslóðir er byggðu þetta land og bjuggu við erfið kjör á öldum áður. Ummerki um horfna byggð og búskaparhætti má víða finna í landslagi. Þar liggja handaverk liðinna kynslóða sem minnisvarðar í landslagi og gaman er að una sér við að ,,hlusta á nið aldanna" í grónum tóftarbrotum,  Verkefnið er samstarfsverkefni Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og Þórbergsseturs. Að verkefninu í heild komu Þorbjörg Arnórsdóttir forstöðumaður Þórbergsseturs, Fjölnir Torfason bóndi Hala, Sigríður Guðný Björgvinsdóttur yfirmaður rannsóknarsviðs Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar, Tim Junge grafískur hönnuður og Heiðar Sigurðsson hönnuður vefsíðu, Anna Soffía Ingólfsdóttir fornleifafræðinemi og Kristinn Heiðar Fjölnisson ljósmyndari.

Lesa meira

Í minningu Önnu Þóru Steinþórsdóttur frá Hala

1Anna Þóra Steinþórsdóttir frá Hala í Suðursveit lést 12. mars síðastliðinn á 104, aldursári. Foreldrar hennar voru Steinþór Þórðarson ( 1892 - 1981) bóndi og Steinunn Guðmundsdóttir( 1888 - 1981) húsfreyja á Hala í Suðursveit. Þóra var jarðsungin frá Laugarneskirkju 22. mars. Útförinni var streymt og komu nokkrir ættingjar Þóru saman í Þórbergssetri til að vera viðstaddir útförin. Meðal gesta var Ingibjörg Zophoníasardóttir mágkona hennar á 98. aldursári, gift Torfa Steinþórssyni bróður Þóru, en hann lést árið 2001 þá 86 ára að aldri. Það var hátíðleg stund í Þórbergssetri þennan jarðarfarardag, mynd var varpað á stórt tjald í sýningarsal setursins og hljóðgæði í útsendingu voru góð. Steinþór faðir Þóru og Torfa var bróðir Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar og bjó alla tíð á Hala. Þóra ólst upp á Hala til fullorðinsára, en bjó síðan alla ævi í Reykjavík. Hér er birt minningargrein sem Steinunn Torfadóttir bróðurdóttir Þóru skrifaði um föðursystur sína og lýsir vel sterkum ættartengslum og tengingum Þóru ,,frænku" við ættingjana heima í Suðursveit.. Blessuð sé minning Önnu Þóru Steinþórsdóttur .

Lesa meira

Jólakveðja frá Þórbergssetri

DSC01663A.jpgÞórbergssetur hefur verið lokað síðan 1. nóvember vegna áhrifa frá Covid 19 faraldrinum. Það má því segja að nú verði mikil friðarins jól á Halabæjunum og fáir á ferli miða við undanfarin ár. Náttúran skartar samt áfram sínu fegursta á milli þess sem hún ögrar okkur mannfólkinu með sínum ógnarkrafti. Í gærkvöldi dönsuðu norðurljósin hér yfir og lýstu upp allan himininn í ótal litbrigðum og meira að segja Öræfajökull glansaði í náttmyrkrinu. ,,Lífið er alltaf að verða öðruvísi og öðruvísi" og ekki um annað að gera en að taka því af æðruleysi,en jafnframt með von um að brátt víki heimsfaraldur fyrir vísindunum og aftur verði iðandi mannlíf í sveit og bæ.
 
Töluverð starfsemi  hefur verið í gangi síðustu mánuði sem aðallega beinist að rannsóknum og fræðistörfum ýmis konar, Þórbergssetur vinnur nú að verkefni um forn býli og skráningu búsetuminja í landslagi í samstarfi við Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Eftirfarandi grein  birtist í Jólablaði Eystrahorns, þar sem vakin er athygli á þessu skemmtilega en jafnframt krefjandi verkefni. Fyrirhugað er að opna sérstakan vef um verkefnið á vordögum og seta upp sýningu og er undirbúningur í fullum gangi. 
 
Óvíst er á þessari stundu hvenær Þórbergssetur opnar fyrir gesti og gangandi á ný, en vonandi þó sem fyrst. Við sendum hugheilar jólakveðjur og þakkir til allra velunnara Þórbergsseturs um allan heim. Framundan eru krefjandi verkefni í framhaldi af ótrúlegum aðstæðum og breyttri heimsmynd, Þá skiptir miklu að við byggjum á okkar arfleifð sem þjóð og hugum að þeim verðmætum sem felast í sögum fortíðar og menningararfleifð. Þannig tókst okkur sem þjóð að lifa af, -  með nægjusemi, samtakamætti og þrautseigju héldum við áfram. Nú höfum við ótal vopn í höndum,, þökk sé tækni og vísindum og ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði strax og tekist hefur að stöðva þá óværu er herjar á heimsbyggðin., Vonandi tekst okkur þá um leið að víkja af braut óhófs og sóunar þannig að jörðin okkar verði áfram byggileg komandi kynslóðum.
 
Bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári með kveðjum frá Þórbergssetri

Þórbergur og austurlensk fræði

Ritið Kápa 022020 BÚt er komið 2. tölublað af tímariti Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands, Ritið og er það í vefútgáfu.Þar er meðal efnis greinar sem eru afrakstur af málþingi í Þórbergssetri í október 2018 og öflugs rannsóknarstarfs innan Háskóla Íslands undir forystu Bergljótar Soffíu Kristjánsdóttur. Fjallað er um verk Þórbergs Þórðarsonar og tengsl þeirra við þekkingu hans á austurlenskum fræðum, sem hann aðhylltist mjög snemma á rithöfundaferli sínum.

Í heftinu er stefnt saman umfjöllun um bókmenntir frá því snemma á 20. öld og samtímaverkum. Það er fyrri hlutinn sem er helgaður Þórbergi Þórðarsyni og er í ritstjórn gestaritstjóranna Benedikts Hjartarsonar og Bergljótar Soffíu Kristjánsdóttur en þar birtast þrjár ritrýndar greinar auk tveggja þýðinga. Fyrstu tvær greinarnar eru um dulspekina í skrifum Þórbergs en undir hana heyra þau þrjú svið sem rithöfundurinn tilgreinir jafnan sérstaklega í verkum sínum: guðspeki, spíritismi og indversk speki, einkum yoga. Stefán Ágústsson fjallar um náttúrutrú og dulspeki í bókinni Steinarnir tala en Álfdís Þorleifsdóttir beinir sjónum sínum að Íslenzkum aðli og ræðir verkið ekki síst í ljósi skrifa Krishnamurtis og hugmyndarinnar um „blekkinguna“ eða maya. Aðalsteinn Eyþórsson og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir skrifa hinsvegar um málvísindi og táknfræði Þórbergs en þau varpa ljósi á margbrotin tengsl skrifa hans við vísindakenningar samtímans. Þá tilheyra þessum hluta þemans tvær þýðingar, önnur þeirra er þýðing Jóns Bjarna Atlasonar á bókarkafla eftir Jakob von Uexküll, sem var einn af brautryðjendum svokallaðrar líftáknfræði, en hin er þýðing Kristjáns Eiríkssonar á bréfi eftir Eúgeno Lanti, sem þýtt er úr esperanto og veitir forvitnilega innsýn í mikla umrótatíma í sögu alþjóðamálsins.

Seinni hlutinn er í ritstjórn Guðrúnar Steinþórsdóttur og Sigrúnar Margrétar Guðmundsdóttur, en þar eru nýleg verk þriggja íslenskra höfunda til umfjöllunar auk þess sem samtímabókaútgáfa á Norðurlöndum er greind. Það má kallast skemmtilegt að enn í dag þykja verk Þórbergs Þórðarsonar nýstárleg í heimi fræðasamfélags íslenskra bókmennta Eftirtektarvert er að höfundur sem kvaddi sér hljóðs á öðrum tug tuttugustu aldarinnar skuli enn vera að birtast okkur með svo nútímalega og fræðilega nálgun, og tali til okkar í tæknivæddri og upplýstri veröld nútímans, m.a. um hugrækt og ,,lífslindirnar innra með okkur". Bergljót Soffía Kristjánsdóttir á þakkir skilið fyrir að skyggnast um í hugarheimi verka Þórbergs og opna þannig á nýja og forvitnilega rannsóknarvídd á verkum hans, sem að reyndar varð nokkuð augljós þegar að verkin voru loks krufin út frá ,,ljósinu í austri".og sjónum okkar beint í þá átt.

Tónleikar á Ólafsmessu 29. júlí Í Kálfafellsstaðarkirkju.

sungiðHinir árlegu sumartónleikar Þórbergsseturs og Kálfafellsstaðarkirkju voru haldnir á Ólafsmessu að kvöldi 29. júli að vanda. Það voru Skaftefllingar þær Þórdís Sævarsdóttir frá Rauðabergi á Mýrum og dóttir hennar Tara Mobee sem skemmtu gestum með fallegum söng.

Tara Mobee er ung og upprennandi söngkona og lagahöfundur og þykir vænt um hornfirskar rætur sínar. Tara er menntuð frá Tónlistarskólanum í Kópavogi, auk fjölda söng- og tónlistarverkefna, m.a. Í upptökutækni og raftónlist. Tara vakti snemma athygli fyrir tón- og lagasmíðar sínar og hefur gefið út eigin lög frá 16 ára aldri. Tara tók þátt í Eurovision 2019 með laginu ,,Betri án þín“ og átti þar góðu gengi að fagna auk þess sem hún hefur gefið út eigin lög á íslandi, verið í toppsætum íslenska vinsældarlistans og er í erlendu tónlistarsamstarfi í Sviss og Bandaríkjunum.

 

meira sungiðÞórdís Sævarsdóttir söngkona, kórstjóri og verkefnastjóri er menntuð frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, FÍH, Complete Vocal Technique og Tónskóla þjóðkirkjunnar auk þess að vera MA í Menningarstjórnun. Þórdís hefur starfað sem sóló-söngkona samhliða öðrum verkefnum, sungið með fjölda sönghópa, haldið tónleika, tekið að sér bakraddasöng á geislaplötum og verið viðburða- og verkefnastjóri á sviði lista, fræðslu og menningar.

Vignir Þór Stefánsson píanóleikari er menntaður tónmenntakennari frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og með mastersgráðu í djasspíanóleik frá Konunglega Tónlistarháskólanum í Haag í Hollandi.

 

lesiðHann hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi og leikið sem píanó - og hljómborðsleikari með söngvurum, sönghópum og kórum og hljómsveitum af öllum stærðum og gerðum. Hann hefur komið fram á geislaplötum og í sjónvarpi og leikið á hljómborð í fjölmörgum söngleikjum sem sýndir hafa verið í stærstu leikhúsum.

Að tónleikum loknum fóru gestir að Völvuleiðinu neðan við Hellakletta og rifjuðu upp hina fornu sögu um völvuna á Kálfafellsstað og völvuleiðið.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5690
Gestir á þessu ári: ... 30691