Skip to main content

Heimsókn í Suðursveit

Hópur eldri lækna og makFellsheimsóknar þeirra alls 42 manns komu og heimsóttu Þórbergssetur helgina 4. - 5. ágúst. Dvöldu þau  í tvo daga og fengu allan viðurgjörning, ferðuðust um svæðið og fengu notið dagskrár svo sem  upplestrar undir borðum, heimsókn á safnið og leiðsögn  um söguslóðir í nágrenni Þórbergsseturs.

Þar á meðal var farið að eyðibýlinu á Felli. Ákveðið var að snæða þar hádegisnestið og hlýða um leið á frásögn Fjölnis Torfasonar um Breiðamerkursand og búsetu á Felli. Fell var um aldamótin 1700 höfuðból með nokkrar hjáleigur eða alls 4 býli í ábúð við manntalið 1703. Þá var gott til bús á sandinum og Fell sýslumannssetur fyrir Austur Skaftafellssýslu.  Þá er það að jökullinn tekur að geysast fram með kólnandi tíðarfari litlu ísaldar og  og eyðingin verður síðan alger þegar bæjarhúsin á Felli tekur af  í stórflóði eða jökulhlaupi árið 1868.

Sambýlið við jöklana gerir sögu Austur- Skaftafellssýslu einstaka og áhrifamikið er að sjá með eigin augum eyðileggingarmátt Breiðamerkurjökuls á þessu svæði og með ólíkindum ótrúlegt að þetta gerist  á ekki lengra tímabili en raun ber vitni. eða aðeins um 150 árum. Við hlaupið flosnuðu upp frá Felli tvær barnmargar fjölskyldur  og voru örlög þeirra þar með ráðin. Afkomendur þeirra eru víða um land, og tenging við liðinn tíma forfeðranna að mestu rofin. Sjá má meira um eyðijörðina Fell á vefsíðunni www.busetuminjar.is 

Síðan var farið í fjöruferð á Reynivallafjöru, en þar hafði rekið stærðarhval á fjöruna skömmu áður. Ferðinni lauk svo með akstri inn í Þröng og  göngu að Breiðamerkurjökli. Þar má sjá einstakt jöklalandslag, klettabelti Fellsfjalls skafin af hrammi Breiðamerkurjökuls og hrjóstruga landmótun jökulsins á jörðu niðri. Veðurárdalur gapir nú opin til vesturs og er með ólíkindum hversu hratt jökullinn hopar til baka. 

Fell heimsókn 2Gaman er að blanda saman sögum úr umhverfinu við náttúruskoðun og segja má að tekist hafi vel til um við skipulagningu þessarar heimsóknar sem var í samvinnu Þórbergsseturs og Guðrúnar Bjarnadóttur læknis. sem var fararstjóri í hópnum. Guðrún hafði starfað sem afleysingalæknir á Höfn og kom þá í vitjun á Hala til Steinunnar Guðmundsdóttur eiginkonu Steinþórs á Hala. Heimsóknin var henni svo minnisstæð að æ síðan hefur hún haft löngun til að nálgast Hala og umhverfið allt um kring og var búin að lesa Suðursveitarbækur Þórbergs og ekki síður Nú, nú frásögur Steinþórs sér til mikillar ánægju. Þórbergssetur þakkar skemmtilega samveru með þessum hressa hópi um verslunarmannahelgina 2023.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 123
Gestir þennan mánuð: ... 2235
Gestir á þessu ári: ... 27237