Skip to main content

Mannvist á Mýrum

Mannvist 1Sýningin Mannvist á Mýrum var opnuð með viðhöfn í bókasafni Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar þann 29. nóvember síðastliðinn. Hér er má sjá afrakstur af skráningarverkefni Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og Þórbergsseturs af fornum rústum og búsetuminjum í Sveitarfélaginu Hornafirði. Verkefnið núna er undir forystu Sigríðar Guðnýjar Björgvinsdóttur landfræðings og sýningin styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.
Hér eru það hinar flatlendu Mýrar, næsta sveit austan Suðursveitar, sem teknar voru fyrir. Sveitinni hefur verið lýst sem vatnabyggð eða eins og segir í textalýsingu sýningarinnar: ,,Mýramenn bjuggu við óvenjulegar og oft krefjandi aðstæður langt fram eftir 20. öld. Framgangur jökla, jökulár sem flæmdust um og jökulhlaup spilltu nytjalöndum og urðu þess valdandi að margar fjölskyldur sem búsettar voru þar, hröktust á milli staða. Þessar erfiðu aðstæður urðu til þess að fjölmörg býli og hjáleigur fóru í eyði."
 
Þar segir einnig: ,,Markmiðið með skráningunni er að vernda og kynna landfræðilegar,mannvistar- og sögulegar upplýsingar um búsetu á svæðinu ásamt því að gera byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu sýnilega. Minjar voru mældar upp með staðsetningartæki, ljósmyndaðar og skráðar. Skráning hófst í Suðursveit vorið 2020 og voru niðurstöður þeirra kynntar sumarið 2021. Í framhaldi hófst skráning á Mýrum með sama hætti og munu sveitirnar Lón, Nes og Öræfi fylgja í kjölfarið."
Sýningin er afar fróðleg. Ekki er um tæmandi upptalningu eyðibýla að ræða og fyrirhugað er að ljúka verkefninu um Mýrar á næsta ári. Einnig verður verkefnið sett inn í heild sinni á heimasíðuna www.busetuminjar.is eins fljótt og kostur er.
 
Sambúð manns og jökuls er sennilega hvergi í öllum heiminum sambærileg og í sveitunum sunnan Vatnajökuls. Skráning þeirrar sögu er mikilvæg og hér er þess gætt að vinna af fagmennsku með nákvæmum mælingum og myndatökum, - en einnig að þróa aðferðir til að gera söguna sýnilega með nútíma tölvutækni og miðlun. Sigríður Guðný Björgvinsdóttir á mikinn heiður skilið fyrir hennar hæfni, framlag og framsýni, Sigurður Hannesson fyrir að miðla af einstakri þekkingu sinni á sveitinni þar sem hann ólst upp, - svo og Tim Junge hönnuður fyrir frábæra hönnun og uppsetningu á spjöldunum.
 
Sýningin verður uppi í Bókasafni Menningarmiðstöðvar fram í janúar og fer síðan vonandi í eitthvað varanlegt húsnæði til sýnis og varðveislu.
Allir eru velkomnir
 
Mannvist 2 Mannvist 3 Mannvist 4

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 123
Gestir þennan mánuð: ... 2235
Gestir á þessu ári: ... 27237