Það líður að jólum - minningarbrot frá liðinni tíð
Sólargeislar varpa gullinni slikju á klettabelti. Snjór er lítill á jörðu en dálítið frost hefur verið svo ísskildir og klakabunkar eru áberandi þegar litið er til skorninga og lækjarfarvega í fjallinu. Sólin skreiðist lágt yfir sléttan hafflötinn. Veður er stillt og bjart og dálítið sjávarhljóð berst til eyrna.
Það er Þorláksmessudagur og ég hef heyrt talað um það undanfarna daga að ær með tveimur lömbum sé austan í Gerðistindi nokkru fyrir neðan miðja kletta. Menn eru óþreyjufullir og ræða þetta sín á milli. Hvað er til ráða? Nú getur brugðið til hins verra með veðrið og gert snjóalög og tekið fyrir alla beit handa fé á þeim takmarkaða bithaga sem þarna er. En það er illfært um klettana þegar frost hefur verið svona samfellt í nokkra daga og fjallasprænur lagðar ísi og klappir með svellalögum og því varasamt að hætta sér í slíkan björgunarleiðangur.
Það styttist til jóla. En það eru einhver ónot í manni. Aumingja skepnurnar þurfa að standa af sér vetrarveður og ná þá ekki lengur að kroppa upp í sig. Bíður þeirra nokkuð annað en frjósa í hel og falla svo fram af klettasillunni? Í haust hafði ég séð ræfilinn af tveimur kindum fyrir neðan kletta ofan við Sléttaleiti. Þær höfðu víst hrapað ofan fyrir í fyrravetur. Þær sáust nefnilega ekki fyrr en komið var fram á vetur og ómögulegt reyndist að bjarga þeim eftir að þær lentu í teppu sem þær ekki komust úr að sjálfsdáðum.
Eftir að ég kom í jólafríið úr skólanum hjá pabba í Hrollaugsstöðum hefur mitt hlutverk hér á Hala verið að hjálpa til við útiverkin, gefa skepnunum hey og fóðurbæti sem þeim þykir ákaflega góður. Svo þarf að vatna fénu því ekkert rennandi vatn er í gömlu fjárhúsunum. Ánum er hleypt út einu sinni á dag og þær reknar austur í læk og þar drekka þær sig sprengfullar af ísköldu fjallavatni. Snjófölið á jörðu verður strax óhreint í sporum þeirra þegar þær fyrstu hafa farið leiðina að læknum. Það eru ákveðin forréttindi að vera í fyrsta hópnum í dag og fá að troða nýfallna mjöllina. Mér verður hugsað til fjárins uppi í klettum. Hvernig skyldi því reiða af?
Það er farið að skyggja og kallað í miðdagskaffi. Það er bökunarilmur sem læðist á móti manni í ganginum þegar inn er komið. Mamma er í eldhúsinu að taka plötur alsettar smákökum út úr ofninum og færir aðrar inn í staðinn. Ofninn í olíukynntu eldavélinni á Hala er ekki alls staðar jafnheitur og dálítið vandaverk að baka í honum. Kökurnar við jaðarinn á plötunni annars vegar eru dálítið brenndar en aðrar í góðu lagi. Þær brenndu er teknar frá og við systkinin fáum að gæða okkur á þeim, alveg óþarfi að henda þeim þó þær hafi tekið svolítinn lit og aukabragð. Það er fjárhúslykt í bland við fjósalykt af peysunni minni en það angrar mig alls ekki á þessari stundu. Ég hef haft ákveðið hlutverk í dag og lagði mig fram um að sinna því eins vel og ég gat.
Það er spáð góðu veðri á morgun og karlmennirnir á bæjunum hafa tekið þá ákvörðun að fara strax í birtingu og freista þess að ná kindunum úr klettunum. En það verður víst vissara að hafa með sér mannbrodda í þeirri ferð.
Zophonías Torfason birt í Eystra- Horni